15. nóvember. 2005 03:58
Félagsstarf flestra bridsfélaganna á Vesturlandi er með rólegra móti í haust og svo virðist sem þátttaka í íþróttinni sé á undanhaldi. Undantekning er þó líflegt starf hjá Bridsfélagi Borgarfjarðar, en þar hófst í liðinni viku aðaltvímenningur vetrarins með þátttöku 40 spilara. Hjá Bridsfélaginu á Akranesi fengust þær upplýsingar að undanfarið hefur verið spilað á 4-6 borðum og er það svipuð eða heldur minni þátttaka en undanfarin ár. Þó gerir Einar Guðmundsson, formaður félagsins ráð fyrir því að fleiri muni taka þátt í Akranesmeistaramótunum í sveitakeppni og tvímenningi sem hefjast eftir áramót.
Bridsfélagið í Borgarnesi hefur verið líflítið að undanförnu, en nokkrir félagar þaðan sækja Borgfirðinga heim í Logaland. Svipaða sögu er að segja úr Grundarfirði en þar er brids spilað á tveimur borðum í heimahúsi um þessar mundir.
Það er því ljóst að víða þarf að hlúa vel að nýliðun í þessum félögum til að starfsemi þeirra eigi ekki að leggjast endanlega af.