16. nóvember. 2005 01:57
Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar og stofnana hans fyrir árið 2006 var lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar í gær. Í henni er gert ráð fyrir að tekjur verði rúmar 2.340 milljónir króna. Stærstur hluti tekna kemur af skatttekjum eða rúmar 1.548 milljónir króna, framlög jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eru áætluð rúmar 196 milljónir króna og aðrar tekjur eru áætlaðar rúmar 595 milljónir króna. Stærsti einstaki gjaldaliður bæjarins eru laun, launatengd gjöld og hækkun lífeyrisskuldbindinga eða tæpar 1.306 milljónir króna. Annar rekstrarkostnaður er áætlaður rúmar 897 milljónir króna og afskriftir rúmar 104 milljónir króna. Þá eru fjármunatekjur áætlaðar rúmar 23 milljónir króna. Niðurstaða rekstrar er því áætluð jákvæð um rúmar 56 milljónir króna.
Bæjarráð hefur samþykkt gjaldstofna bæjarins fyrir næsta ár og er þar gert ráð fyrir óbreyttri útsvarsprósentu, eða 13,03%. Álagningarstofn fasteignaskatts íbúðarhúsa lækkar úr 0,431% í 0,394% en álagningarstofn annarra fasteigna er óbreyttur. Holræsagjald verður óbreytt eða 0,2% af fasteignamati. Þá hækkar vatnsgjald um ríflega 6% og einnig hækka leikskólagjöld og þjónustugjöld í grunnskólum um 5% um næstu áramót. Gunnar Sigurðsson fulltrúi minnihlutans í bæjarráði samþykkti álagningu gjalda með fyrirvara en ekki kom fram í fundargerð hver sá fyrirvari væri.
Nánar verður gerð grein fyrir fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar í Skessuhorni í næstu viku.