24. nóvember. 2005 01:20
Fyrir skömmu var gengið frá kaupum Kaupfélags Borgfirðinga svf. á 40% eignarhluta Byggðastofnunar í eignarhaldsfélaginu Vesturlandi hf. Fyrir átti Kaupfélagið 1%, Sparisjóður Mýrasýslu 49% og nokkur sveitarfélög 10%. Að sögn Guðsteins Einarssonar, framkvæmdastjóra Kaupfélagsins var hluturinn keyptur á nafnverði. “Með þessum kaupum standa væntingar til þess að hægt verði að efla fjárfestingar í atvinnurekstri og þá ekki síst hér á Vesturlandi enda var upprunalegur tilgangur félagsins þess,” segir Guðsteinn.
Hann segir að fram að þessu hafi Vesturland hf. ekki tekist að styrkja atvinnulífið með neinum raunhæfum hætti og til marks um það hafi ekki verið fjárfest nema fyrir tæpar 50 milljónir í tíð félagsins undanfarin 4 ár. “Fjárfestingageta Vesturlands hf. er a.m.k. 6-7 hundruð milljónir króna og því er ljóst að félagið hefur getu til að láta að sér kveða í atvinnulífinu hér á svæðinu.” Í stjórn Vesturlands hf. eru þeir Guðsteinn og Sveinn Hallgrímsson frá Kaupfélaginu, Stefán Sveinbjörnsson og Sigurður Már Einarsson frá Sparisjóði Mýrasýslu og Bernharð Þór Bernharðsson, forseti viðskiptadeildar Viðskiptaháskólans á Bifröst.