Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Smáauglýsingar

3ja herb Íbúð á Bifröst

3ja herb íbúð,, 65,4 fm. til leigu á Bifröst Íbúðin getur verið laus mjög fljótlega Upplýsing...
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
08. desember. 2005 12:46

Undirbúningshópur gagnrýnir framkvæmd Írskra daga

Undirbúningshópur vegna Írskra daga á Akranesi, sem haldnir voru í sumar, gagnrýnir margt í undirbúningi og framkvæmd daganna í greinargerð sem lögð var fyrir bæjarráð Akraness á dögunum. Af skýrslunni að dæma hefur ekki tekist að skapa þann grunn að dögunum sem nauðsynlegt er svo hátíðin nái af dafna í framtíðinni og virðist áhugaleysi svokallaðra hagsmunaaðila vera mikið vandamál.

 

Fáir komu að undirbúningi daganna. Í skýrslunni segir meðal annars um þann tíma: „Það lenti einkum á Sigrúnu (Ósk Kristjánsdóttir innsk.blm.) og Tómasi (Guðmundssyni innsk.blm.) að sjá um hátíðina en um 4-5 manna verk var að ræða árið áður, þrátt fyrir mun minni umsvif það árið. Markaðsráð Akraness (MRA) og aðrir hagsmunaaðilar tóku lítinn þátt í verkefninu, nema með auglýsingu í dagskrárblaði hátíðarinnar. Reyndar sat Hugi (Harðarson innsk.blm.) í undirbúningsnefnd hátíðarinnar fyrir hönd MRA, en fyrirtækin í bænum sátu alfarið hjá í aðdraganda og undirbúningi. Þetta er reyndar mikið vandamál í skipulagningu þessa viðburðar, þ.e. hve hagsmunaaðilar sjá sér lítinn hag í þátttöku í Írskum dögum.“

 

Ekki er ástandið betra á öðrum bæjum ef marka má þessi orð: “Stuðningur annarra deilda bæjarins var lítill sem enginn; ekki virðist gert ráð fyrir þátttöku þeirra í þessum umfangsmikla viðburði.” En þó er ljós í myrkrinu: “Undantekning frá þessu var einstakur samstarfsvilji og þátttaka Einars Skúlasonar og hans fólks í unglingavinnunni og svo framlag Ellýjar Halldórsdóttur, sem tók að sér að færa Akranes í hátíðarbúning. Ef Írskir dagar hefðu aðgang að fleira fólki sem kemur að verki með sama hugarfari og þau Einar og Ellý yrði starfið allt mun auðveldara.”

 

Þá segir einnig um þátttöku starfsmanna bæjarins: “Það er ekki ásættanlegt að þeir sem þurfa að koma að eins umfangsmiklum viðburði og hér um ræðir séu að gera undirbúningsnefnd sérstakan greiða með annars sjálfsögðu vinnuframlagi. Einnig er nánast útilokað að gera raunhæfar áætlanir þar sem aldrei er hægt að sjá fyrir ákveðinn kostnað, t.d. áhaldahúss fyrr en eftir að viðburðinum er lokið; áhaldahús hefur nánast opna heimild á Írska daga, sem er ótækt, einkum þar sem nefndinni er mjög þröngur stakkur sniðinn fjárhagslega. Þessi kostnaður ræðst t.d. mjög af veðri; vont veður hefur í för með sér meiri vinnu en gott veður hefur líka í för með sér meiri kostnað vegna fleiri gesta og aukins umfangs hverskonar þjónustu. Skilgreining á framlagi áhaldahúss er ekki til og hér er því um ákveðinn galla í skipulaginu að ræða. Ekki hefur undirbúningsnefndin neina lögsögu yfir þeim heldur. Hvernig er þetta framlag metið? Er t.d. bíltúr starfsmanna um bæinn á eftirlitsferð metinn sem kostnaður vegna Írskra daga eða Skagamóts eða einhvers annars? Í lokin tekur svo við prútt á milli starfsmanna bæjarins um reikninginn – á því varð engin breyting í ár. Undirbúningsnefnd fannst aðkoma áhaldahúss með minnsta móti og kom þar margt til; fólk var í sumarfríum og því fáir eftir til að sinna þeim fjölmörgu verkefnum sem hrönnuðust upp. Nefndin þurfti því að kaupa þessa vinnu annars staðar. Hins vegar má segja að forsvarsmenn áhaldahúss séu heldur ekki í góðri aðstöðu til að meta hvað var raunverulegt framlag og hvað var á “gráa svæðinu” hvað þetta varðar. Þess vegna tók við áðurnefnt “prútt” um reikninginn. Á þessu þarf að finnast ásættanleg lausn.“

Fjömenni sótti þó dagana eins og hér segir: “Írsku dagarnir voru annars vel heppnaðir og fjöldi fólks tók þátt í öllum dagskrárliðum. Áætlað er að 8-10 þúsund manns hafi tekið þátt í hátíðahöldunum. Veður var ekki eins og best hefði verið á kosið og veðurspár voru jafnvel enn verri sem líklega hefur orðið til þess að einhverjir sem annars hefðu mætt létu sig vanta. Á síðasta ári lék veðrið við hátíðargesti. Nú var raunin önnur og því fylgdi m.a. aukinn kostnaður.”

 

Á undirbúningstímanum var hætt við svonefnda Bylgjulest á Írskum dögum og það gerði strik í reikninginn. Um það segir í skýrslunni: “Undanfarin ár hafa Skagamenn notið góðs af því að Bylgjan hefur ferðast um landið með hina svokölluðu Bylgjulest. Í ár var hún blásin af löngu eftir að undirbúningur Írskra daga hófst. Þetta setti stórt strik í erfiðan reikning undirbúningsnefndar. Því þurfti að setja upp hátíðarsvið, leigja hljóðkerfi og skipuleggja skemmtidagskrá, sem tilheyrir hátíðum sem þessum. Hátíðarsvið Akraneskaupstaðar stóð í henglum á athafnasvæði ÞÞÞ og þurfti að kosta miklu til að flytja það á hátíðarsvæðið og koma því í ásættanlegt ástand. Þessi kostnaður var um 250.000,- krónur, þar sem stærstu kostnaðarliðir voru flutningur á sviðinu til og frá, aðstoð áhaldahúss við að opna sviðið og staðsetja það, tenging við rafmagn og svo þurfti að leigja tengivagn sem notaður var til framlengingar á sviðinu þar sem þær framlengingar sem tilheyrðu sviðinu voru orðnar ónýtar og nánast hættulegar. Hljóðkerfi með tilheyrandi mannskap fyrir viðburð af þessari stærð kostaði sitt og þá voru skemmtikraftar ótaldir.“

 

Erfiðlega gekk að fá félagasamtök til að leggja málinu lið. Um það segir: „ Það væri reyndar óskandi að félagasamtök í bænum tækju virkari þátt í hátíðahöldunum en það reyndist óvinnandi verk að fá mörg þeirra til þátttöku. Það kann að einhverju leyti að stafa af því að á þessum árstíma eru margir á ferð og flugi. Björgunarfélag Akraness var þó algjör undantekning en liðsmenn þess stóðu fyrir tveimur viðburðum; Arneshlaupi (sem því miður var aflýst v/ veðurs) og kassaklifri. Auk þess aðstoðuðu þeir við sviðið á þyrlupallinum, sáu um gæslu eftir Lopapeysuballið og tóku hátíðartjaldið niður á sunnudeginum. Segja má sem svo að ógerlegt hefði verið að halda ÍD ef krafta þeirra hefði ekki notið við.“

 

Ótrúlegustu atburðir unnu gegn undirbúningi daganna. Boðið var til landsins írskum skemmtikröftum og blaðamönnum með það að markmiði að vekja athygli á dögunum. “Tilgangurinn með því að fá þekkt írskt tónlistarfólk til liðs við hátíðina var fyrst og fremst sá að auðvelda aðgengi að umfjöllun í fjölmiðlum. Það heppnaðist að einhverju leyti en hryðjuverk í London á upphafsdegi ÍD (fimmtudeginum) urðu til þess að nánast öll viðtöl (m.a. í Kastljósinu) voru blásin af.” Heimsókn Íranna tókst þó vel því um það segir meðal annars: “Heimsókn þeirra þótti takast vel í alla staði og sömuleiðis voru fjölmiðlamennirnir ánægðir. Þarna hefur skapast mikilvæg tenging sem verður að halda lifandi; fram komu m.a. hugmyndir um að tengja Golfklúbbinn frekar við Írland með alþjóðlegu og árlegu írsku “Guinnes” móti á Írskum dögum í dúr við Arctic Open og fleiri slík mót. Var þetta kynnt fyrir þessum írsku gestum og leist þeim vel á þessar hugmyndir. Frekari úrvinnsla þessarar hugmyndar er þegar hafin.“

 

Þrátt fyrir þetta mótlæti fór fjárhagsramminn ekki úr skorðum. Um það mál segir í skýrslunni: “Þrátt fyrir aukinn kostnað við dagskrá hátíðarinnar og umgjörð vegna hennar tókst að verulegu leyti að halda ÍD innan þess ramma sem settur var í upphafi. Framlag Akraneskaupstaðar og sértekjur, þ.e. það sem var til ráðstöfunar, var samtals 3.000.000 króna en þegar upp var staðið kostuðu Írskir dagar þetta árið 3.364.586,- krónur.  Reyndar gerðu upphaflegar áætlanir ráð fyrir mun meiri kostnaði, en þegar sýnt þótti í hvað stefndi, m.a. varðandi dagskrárkostnað og kostnað við umgjörð hátíðarinnar, var ákveðið að draga úr ýmsum kynningarkostnaði og ódýrari leiðir farnar á flestum öðrum sviðum.”

 

Í niðurlagi skýrslunnar segir svo um markað þann sem haldinn var á hátíðinni: “Það er mat nefndarinnar að ekki sé þess virði að bjóða upp á markað með þeim hætti sem verið hefur þar sem mikill kostnaður og vinna hlýst af því. Á næsta ári verður risið fjölnota íþróttahús á Akranesi og hugsanlega mætti nota það til þess að hýsa markaðinn. Þá væri hægt að bjóða aðilum að selja þar að kostnaðarlausu gegn því að þeir kæmu með borð. Með því móti mætti einnig auka úrval þess sem þar er á boðstólum. Einnig hefur komið upp sú hugmynd að Akraneskaupstaður kaupi tjald sem hægt væri að nota við ýmis tækifæri.”

 

Hátíðin í ár var haldin á sama tíma og Skagamótið í knattspyrnu. Það hefur sætt nokkurri gagnrýni. “Eftir Írsku dagana á síðasta ári og árið þar áður komu upp raddir sem gagnrýndu sameiginlegt hátíðahald Írskra daga og Skagamótsins í knattspyrnu. Gagnrýnt var að annars vegar væri haldin hátíð sem óneitanlega gæti fylgt svall og drykkja og hins vegar íþróttamót ungra knattspyrnuhetja. Sú ákvörðun var hinsvegar tekin að halda þessa viðburði samhliða þetta árið og var samstarf undirbúningsnefnda þessara tveggja viðburða með miklum ágætum. Að loknum Írskum dögum þetta árið kom upp sama gagnrýni og í fyrra; heimamenn eru bundnir við gæslustörf á Skagamóti og geta því ekki tekið þátt í Írskum dögum. Gestir Skagamóts verða fyrir ónæði af drukknu fólki. Einstakir viðburðir Írskra daga hvetja til og leiða til áfengisneyslu, sem fellur engan veginn að því sem Skagamót stendur fyrir.“

 

En ekki er allt slæmt því hér er samanburður við aðrar bæjarhátíðir: “Reyndar var eftir því tekið af þeim sem sækja hátíðir sem þessar með reglulegu millibili víða um land; fjölmiðlafólki, þjónustuaðilum og skemmtikröftum, að ekki "sást vín á nokkrum manni" nema eftir að líða tók á kvöld. "Venjan" er að fólk gangi um götur þeirra bæja sem halda sambærilegar hátíðir með bjórdósir og kúrekahatta, en Írskir dagar virðast hafa náð þeim “fjölskyldu-standard”  sem að var stefnt í upphafi. Írskir dagar eru fjölskylduhátíð og því merki hefur ætíð verið haldið á lofti.“

 

Að lokum segir svo í skýrslu undirbúningshópsins: “Samkeppni um bæjarhátíðir er mikil. Sumarið á Íslandi er stutt og því mikilvægt að ná að halda slíka hátíð á háannatíma í ferðaþjónustu þegar fólk er almennt í sumarfríi, þ.e. í júlí. Sama gildir um knattspyrnumót eins og það sem hér um ræðir. Skagamótið er einn stærsti íþróttaviðburður ársins. Hér þarf að vega og meta. Hvorugan viðburð er hægt að flytja til svo auðvelt sé; báðir hafa náð að festa sig í sessi á þessum tíma og ekki auðvelt að færa þá til. E.t.v. er betra að taka á þeim skipulagsvandamálum sem blasa við innbyrðis en í öllu falli að klára þessa hvimleiðu umræðu sem kemur upp á hverju ári. Undirbúningsnefndin leggur til að Írskir dagar verðir áfram haldnir aðra helgi júlímánaðar ár hvert, á sama tíma og Skagamótið er haldið og að undirbúningsnefndir þessara tveggja viðburða leggi sig fram um að leysa þau skipulagsmál sem upp hafa komið svo allir geti vel við unað.”

 

Eins og áður sagði var skýrslan lögð fyrir bæjarráð. Einnig var hún lögð fyrir menningarmála- og safnanefnd sem bókaði að hún legði áherslu á að sú tímasetning sem Írskir dagar hafa verið á verði óbreytt. Jafnframt var undirbúningshóp falið að hefja undirbúning að næstu hátíð sem fyrst “m.a. með það að markmiði að tengja hagsmunaaðila og stofnanir bæjarins dögunum sem kostur er,” eins og segir í bókun nefndarinnar.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is