13. desember. 2005 09:13
Síðastliðinn mánudag lauk fimm kvölda aðaltvímenningi Bridsfélags Borgarfjarðar. Spilað var á tíu borðum, barómeter og tölvugefin spil frá Bridssambandi Íslands. Mótið var fjörugt og skemmtilegt og réðust úrslit ekki fyrr en í síðustu umferð þegar formaður félagsins; Jón Eyjólfsson skaust á toppinn ásamt makker sínum Baldri Björnssyni. Þeir félagar toppuðu á hárréttu augnabliki því þetta var í fyrsta skiptið á mótinu sem þeir vermdu toppsætið. Í öðru sæti enduðu Sveinbjörn Eyjólfsson og Lárus Pétursson, Sveinn Hallgrímsson og Magnús Magnússon í þriðja en Borgnesingar vermdu síðan þriðja til sjötta sæti mótsins. Næstkomandi föstudag verður árlegur jólasveinatvímenningur spilaður og fara félagar eftir það í frí fram til 9. janúar.