30. desember. 2005 02:14
Mjög misjafnt er hversu þungar útsvarsálögur sveitarstjórnir á Vesturlandi leggja á íbúa á árinu eða allt frá því að vera þær lægstu sem leyfilegt er til þeirra hæstu. Undanfarnar vikur hafa sveitarstjórnir verið að ganga frá fjárhagsáætlunum sínum og þar með talið tekjustofnum. Samkvæmt lögum geta sveitarstjórnir ekki lagt á íbúa lægra útsvar en 11,24% og ekki hærra en 13,03%. Þrjú sveitarfélög á landinu leggja lágmarksútsvar á íbúa sína og þar af eru tvö þeirra á Vesturlandi; Skorradalshreppur og Helgafellssveit. Fimm önnur sveitarfélög á Vesturlandi leggja á lægra útsvar en hámarkið segir til um.