30. desember. 2005 04:34
Vélstjórafélag Íslands, Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök atvinnulífsins gerðu í dag nýjan kjarasamning um kjör vélstjóra á fiskiskipum. Kjarasamningurinn kemur í stað samnings aðilanna frá 2001 sem rennur út þann 31. desember 2005. Gildistími er til 31. maí 2008. Samningurinn felur í sér margvíslegar breytingar frá fyrri samningi og er í meginatriðum í samræmi við samninga útvegsmanna við önnur stéttarfélög sjómanna. Þó eru frávik t.d. hvað varðar greiðslur vegna starfsaldurstengds orlofs, greiðslur í styrktar- og sjúkrasjóð og uppsagnarfrest, þannig að greitt er álag á hlut allra vélstjóra.