01. febrúar. 2006 09:40
Íslandspóstur hefur óskað eftir því við Vegagerðina að hún komi á samgöngum við Hvalseyjar því það sé ekki í verkahring Íslandspósts að tryggja samgöngur. Í bréfi sem fyrirtækið sendi Vegagerðinni er bent á að allar ferjusamgöngur á Íslandi séu kostaðar af Vegagerðinni og því óeðlilegt að Íslandspóstur sé að kosta sérstakar ferjuferðir fyrir póstdreifingu. Fyrirtækið vilji hins vegar nýta þær ferðir sem í boði eru svo sem í Flatey, Skáleyjar, í Æðey og Vigur og til Mjóafjarðar. Til þessa hafi Vegagerðin hins vegar ekki kostað ferðir í Hvalseyjar.
Óskar Íslandspóstur því eftir því að Vegagerðin tryggi að minnsta kosti tvær ferðir á viku til Hvalseyja. Í bréfinu kemur fram að þar séu tveir íbúar búsettir allt árið og hafi gert það undanfarin fjögur ár.