01. febrúar. 2006 11:49
Forsvarsmenn fasteignafélagsins Þyrpingar áttu í gær fund með umhverfis- og skipulagsnefnd Borgarbyggðar og bæjarstjórnendum þar sem þeir viðruðu áhuga fyrirtækisins á að byggja 500 fermetra viðbót við nýlegt verslunarhús Bónuss í Borgarnesi. “Á fundinum kynntu þeir hugmyndir sínar um stækkun hússins að Digranesgötu 6. Ef leyfi fæst til stækkunar yrði um að ræða viðbyggingu við húsið sem mun þá hýsa einhvers konar sérvöruverslun sem heyrir undir Haga. Gestirnir nefndu ekki á þessu stigi nákvæmlega hvernig verslun yrði um að ræða. Nefndin tók jákvætt í erindið og verður það rætt á næsta fundi bæjarráðs sem taka mun afstöðu til framhalds málsins,” sagði Páll S Brynjarsson, bæjarstjóri í samtali við Skessuhorn.