01. febrúar. 2006 03:18
Byggingarnefnd Akraness hefur samþykkt tillögu byggingarfulltrúa bæjarins að beitt verði dagsektum til að knýja fram úrbætur á tveimur byggingasvæðum í bænum. Um er að ræða lóðirnar Hagaflöt 7 og Holtsflöt 9. Akurhús ehf. í Reykjavík eiga byggingarétt á þessum lóðum og hafa þær nokkuð verið í fréttum að undanförnu vegna slakra öryggismála. Meðal annars hafa miklar tjarnir myndast í grunnunum og valdið slysahættu. Byggingafulltrúinn hefur ítrekað reynt að knýja fram úrbætur en án árangurs. Því telur nefndin ekki fært að bíða lengur eftir úrbótum og hafa því verið lagðar á 3.600 króna dagssektir á hvora lóð um sig. Einnig fól nefndin byggingafulltrúa að hlutast til um að byggingarsvæðin verði girt af nú þegar á kostnað lóðarhafa. Rétt er að ítreka að fyrirtækið Akurhús ehf. er alls óskilt fyrirtækinu Akri á Akranesi sem stendur að húsbyggingum á Akranesi og víðar.