01. febrúar. 2006 03:20
Bílasalan Bílás hefur selt fasteignafélaginu Sveinbirni Sigurðssyni ehf. húseignina við Þjóðbraut 1 á Akranesi þar sem bílasalan, málningarverslun og fleira er til húsa í dag. Að sögn Ólafs Óskarssonar, annars eiganda Bíláss fyrirhugar kaupandinn að rífa húsið og byggja þar 7 hæða íbúðarhúsnæði með verslunar- og þjónusturými á jarðhæðinni. Þær framkvæmdir hefjast að líkindum þegar í vor. Ólafur sagði í samtali við Skessuhorn að þeir Bílásbræður hafi vilyrði fyrir lóð við Smiðjuvelli í nálægð við þann stað sem Bónus hefur fengið úthlutað lóð, og hyggjast þeir byggja þar sérhæft bílasöluhús.
Hann sagði þessa sölu eðlilegt framhald af þeirri þróun sem á sér stað í bæjarfélaginu að eldri hús hverfi og ný rísi í staðinn á eftirsóttum stöðum í nálægð við miðbæinn. “Bílasalan verður eftir þess breytingu staðsett í útjaðri bæjarins líkt og er með bílasölur t.d. á Selfossi og í Reykjanesbæ,” sagði Ólafur.