04. febrúar. 2006 08:20
Fyrirtæki í áliðnaði á Íslandi bjóða góð og vel launuð störf og það endurspeglast í miklum stöðugleika í starfsmannahaldi. Þetta kom fram í erindi Gylfa Arnbjörnssonar framkvæmdastjóra Alþýðusambands Íslands sem hann flutti á ráðstefnu sem Samtök atvinnulífsins efndu til og bar heitið Orkulindin Ísland. Í máli Gylfa kom fram að meðalstarfsaldur hjá Alcan í Hafnarfirði sé með því lengsta sem gerist á vinnumarkaði og hafi verið yfir 15 ár í árslok 2005. Þessi langi starfsaldur sýndi að mati Gylfa að starfsmenn væru þokkalega sáttir við vinnuveitandann. Fyrir vikið er veltuhraði starfsmanna mjög lítill eða um 3,5-4% á ári til samanburðar við 30% hjá félagsmönnum ASÍ almennt. Þá kom fram að samskipti milli stéttarfélaga og fyrirtækja í greininni væru víðtæk og almennt jákvæð.
Þá kom fram hjá Gylfa að regluleg mánaðarlaun verkafólks og iðnaðarmanna í álverum eru mun hærri en meðaltal þessara hópa á landinu. Meðallaun allra starfa í álverum hefðu verið 320 þúsund á sama tíma og meðallaun iðnaðarmanna á landinu öllu hefðu verið 240 þúsund krónur og verkafólks aðeins 160 þúsund krónur.
Slysatíðni í ál- og járnblendiiðnaði hefur farið hratt minnkandi á undanförnum árum. Á árinu 2000 var slysatíðnin um fimmfalt hærri en í öðrum atvinnugreinum en á síðasta ári var slysatíðnin orðin heldur lægri en í öðrum atvinnugreinum og er nú svo komið að lítið er um alvarleg slys í þessum iðnaði. Þessi árangur hafi náðst með miklum skilningi og öryggisvitund starfsmanna og stjórnenda auk þess sem þessi fyrirtæki væru í dag frumkvöðlar í öryggis- og aðbúnaðarmálum og oft á undan löggjöf í þessum málaflokki.