07. febrúar. 2006 05:48
Þann 18. febrúar verður í Grundarfirði stofnað hlutafélag um byggingu og reksturs frystiklefa í Grundarfirði. Málið hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið að sögn Þórðar Magnússonar framkvæmdastjóra Djúpakletts ehf. í Grundarfirði. Þórður segir að á undanförnum árum hafi staðið yfir mikil uppbygging á ýmissri hafnsækinni starfsemi í Grundarfirði og má þar nefna ísverksmiðjuna Snæís, en rekstur hennar hefur gengið vonum framar. Að þessari uppbyggingu hafa komið fjölmörg fyrirtæki, einstaklingar og stofnanir. Frystiklefinn eða frystihótelið eins og byggingin er kölluð manna á meðal verður um 6.000 rúmmetrar að stærð í fyrsta áfanga og mun rísa á landfyllingu við höfnina. Nýverið var auglýst útboð á fyrirstöðugarði vegna landfyllingarinnar og því ekki ljóst hvenær bygging frystiklefans hefst en Þórður segist vonast til þess að það geti orðið fyrir áramót. Hann segir að heildarkostnaður sé áætlaður milli 120 og 130 milljónir króna og fjármögnun sé þegar tryggð bæði með hlutafjárloforðum og lánsfé.