08. febrúar. 2006 07:50
Á síðasta ári varð rúmlega 16,3 milljóna króna hagnaður af rekstri Sorpurðunar Vesturlands hf. eftir skatta eða tæp 34% af tekjum. Þetta kom fram á stjórnarfundi fyrirtækisins sem haldinn var 30. janúar. Stjórnin leggur til að greiddur verið 25% arður til hluthafa af nafnverði hlutafjár. Jafnframt var framkvæmdastjóra falið að leita ávöxtunarleiða fyrir lausafjármagn. Tekjur félagsins námu rúmum 48,2 milljónum króna og rekstrargjöld voru rúmar 18.5 milljónir króna. Fjármunatekjur voru 784 þúsund krónur og hagnaður fyrir tekjuskatt var rúmar 19,3 milljónir króna.
Samtals voru urðuð 11.016 tonn af úrgangi í Fíflholtum á árinu á vegum fyrirtækisins en það er nokkur aukning frá árinu á undan þegar 9.754 tonn voru urðuð. Þá voru flutt til Fíflholta 2.941 tonn af timburkurli sem er notað sem yfirlag við urðun og sparar þar með jarðveg.