09. febrúar. 2006 01:40
Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að verja 270 milljónum króna til uppbyggingu reiðhúsa. Hér er um að ræða fjármagn og eignir sem eftir voru við niðurlagningu Lánasjóðs landbúnaðarins og ekki voru hluti af söluandvirði sjóðsins. Þessi ákvörðun er tekin í kjölfar skýrslu nefndar sem skipuð var til að gera úttekt á aðstöðu til hestamennsku á landsbyggðinni.
Jafnframt fól ríkisstjórnin landbúnaðarráðherra að skipa fjögurra manna nefnd sem skal úthluta styrkjum til byggingar reiðhúsa. Landbúnaðarráðherra skipar tvo fulltrúa í nefndina án tilnefningar, einn fulltrúa tilnefndan af fjármálaráðherra og einn fulltrúa tilnefndan af menntamálráðherra.
Með þessum hætti telur ríkisstjórnin að öflugum stuðningi sé veitt til fjölþættrar uppbyggingar og atvinnusköpunar í landbúnaði og til eflingar kennslu og þjálfunar barna, unglinga og fatlaðra í hestaíþróttum.
Með reiðhúsum er átt við reiðhallir, reiðskemmur og reiðskála. Reiðhöll er húsnæði til hvers konar þjálfunar og sýninga á hrossum innanhúss, þar sem aðstaða er fyrir nokkurn fjölda áhorfenda, ásamt nauðsynlegri hreinlætis- og salernisaðstöðu. Gólfflötur reiðvallar er frá 40x20 m. Reiðskemma er húsnæði til þjálfunar hesta og námskeiðahalds þar sem ekki er gert ráð fyrir fjölda áhorfenda eða miklu öðru rými en gólffleti hússins sjálfs. Gólfflötur reiðskemmu er á bilinu 12x10 m til 40x20 m. Húsnæðið er ekki ætlað til sýningahalds eða fyrir stóra viðburði. Reiðskáli er aðstaða fyrir tamningamenn til vinnu með hesta innandyra. Gólfflötur reiðskála er að jafnaði um 12x10 m.
Við ákvörðun um styrkveitingu til einstakra verkefna skal miða við að bygging reiðhallar fái allt að 30 milljónir í styrk, bygging reiðskemmu fái allt að 15 milljónir og bygging reiðskála fái allt að 5 milljónir.
Í skýrslu nefndarinnar, sem áður er getið, voru gerðar tillögur um uppbyggingu húsa á ýmsum stöðum. Má þar nefna að gerð var tillaga um að styrkt verði bygging reiðskemmu í Borgarfirði og á Snæfellsnesi.