15. febrúar. 2006 11:46
Framsóknarflokkur, Vinstri-Grænir og óháðir í Grundarfirði hafa ákveðið að bjóða fram sameiginlegan lista við bæjarstjórnarkosningarnar í vor, að sögn Garðars Svanssonar bæjarfulltrúa óháðra. Listarnir buðu fram hver í sínu nafni við síðustu kosningar og hlaut listi Framsóknarfélags Grundarfjarðar tvo menn kjörna, listi óháðra hlaut einn mann kjörinn og listi Vinstri-Grænna hlaut einn mann. Þá hlaut listi Sjálfstæðismanna í Grundarfirði þrjá menn kjörna. Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn mynda í dag meirihluta bæjarstjórnar. Samfylkingin hefur ekki átt fulltrúa í bæjarstjórn. Garðar segir að nú þessa dagana sé málefnavinna hins nýja framboðs í gangi og innan tíðar verði haldið forval vegna uppstillingar á framboðslistann.