16. febrúar. 2006 12:19
Kjalar ehf. í Borgarnesi keypti í síðustu viku 5,19% hlut í HB Granda hf. Hluturinn sem er rúmar 88,5 milljónir að nafnverði, var áður í eigu Kers hf. Ef marka má síðasta sölugengi bréfa HB Granda má ætla að kaupverðið sé rúmar 800 milljónir króna. Kjalar kaupir hlutinn með framvirkum samningi með uppgjörsdegi 9. ágúst 2006 en fer með atkvæðisrétt frá undirritun kaupsamnings. Eigandi Kjalars er Ólafur Ólafsson. Fyrir ekki svo mörgum misserum hefði það þótt fremur ólíklegt ef einhver hefði haldið því fram að Borgnesingar ættu stærri hlut í fyrirtækinu en Skagamenn. En svona hafa málin engu að síður þróast.