16. febrúar. 2006 09:22
Lögreglan á Akranesi hafði afskipti af mörgum ökumönnum í liðinni viku. 17 voru kærðir fyrir of hraðan akstur. Hæstu tölur í þeim brotum voru 128 km/klst þar sem hámarkshraði er 90, 118 km/klst þar sem leyfður hraði er 70 og 99 km/klst innanbæjar þar sem leyfður hraði er 50. Sá síðastnefndi getur reiknað með 40.000 króna sekt vegna brotsins og rétt sleppur við ökuleyfismissi. 8 voru kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti. 5 árekstrar voru tilkynntir til lögreglu og var tjón lítið í þeim öllum. Í tveimur tilfella var ekið á kyrrstæðar og mannlausar bifreiðar og ekið af vettvangi án þess að tilkynna um óhöppin. Í öðru tilfellinu var ekið utan í gráan Lexus. Gerðist það annað hvort við íþróttahúsið við Vesturgötu á fimmtudagskvöld eða við Fjölbrautaskólann á föstudagsmorgun. Í hinu tilfellinu var ekið utan í hvíta Opel bifreið fyrir utan SHA á fimmtudag eða föstudag. Lögregla biður vitni sem upplýsingar geta gefið um þessi óhöpp að hafa samband.