17. febrúar. 2006 10:39
Loðna veiðist nú á stóru svæði meðfram Suðurlandi og landa því sum skip HB Granda aflanum á SV horninu þessa dagana. Víkingur AK 100 landaði 1.400 tonnum af loðnu á Akranesi í nótt og Svanur RE 45 landaði 400 tonnum um borð í Engey RE 1 í nótt og er síðan væntanlegur á Akranes í dag með 700 tonn til löndunar. Sunnuberg NS 70 er að landa á Vopnafirði um 600 tonnum sem fara í frystingu. Ingunn AK 150 er væntanleg á Vopnafjörð í kvöld með 600 tonn sem fara til frystingar. Faxi RE 9 landaði í frystingu á Vopnafirði um 600 tonnum í gær og er á leið á miðin. Stöðug loðnufrysting hefur verið um borð í Engey RE 1 og búið er að frysta um 4 þúsund tonn það sem af er vertíð.
Samkvæmt frétt á heimasíðu HB Granda geta skip fyrirtækisins einungis farið tvo fullfermistúra til viðbótar miðað við núverandi úthlutun aflaheimilda. Vonir standa til að rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson nái nógu góðum mælingum til þess að hægt verði að gefa út viðbótarkvóta.