21. febrúar. 2006 09:50
Þann 15. febrúar síðastliðinn var haldinn stofnfundur ungra Vinstri grænna á Vesturlandi og fór fundurinn fram á Mótel Venusi í Hafnarskógi. Fundurinn var vel sóttur og meðal gesta voru þingmennirnir Jón Bjarnason og Hlynur Hallsson. Fyrr um daginn heimsótti stjórn UVG Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, Lanbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og Fjölbrautaskóli Snæfellinga í Grundarfirði. Á stofnfundinum var Ásmundur Einar Daðason, nemandi við LBHÍ, kjörinn formaður félagsins en aðrir í stjórn voru kjörnir Jón Örvar Jónsson, einnig nemandi LBHÍ, Þórhildur Halla Jónsdóttir og Katrín Lilja Jónsdóttir, nemendur við FVA, og Einar Á. Friðgeirsson, sem jafnframt er nýkjörinn formaður Grábrókar, félags VG á Bifröst. Varamenn félagsins eru Finnbogi Vikar Guðmundsson, Bifröst, og Þóra Bjartmarsdóttir, FVA.
“Þetta verður hefðbundið starf með þáttöku í ungliðahreyfingunni og stjórnmálaumræðunni í landinu almennt,” segir Ásmundur, nýkjörinn formaður félagsins. “Félagið mun meðal annars leggja mikla áherslu á skólamál, en í raun munum við vinna að öllu sem viðkemur landinu og þá sérstaklega Vesturlandi. Við ætlum að hvetja okkar unga fólk til að taka þátt í komandi sveitastjórnarkosningum og vera sýnilegra í starfsemi landshlutans sem og í landsbyggðarpólitíkinni.”
Burt með einhæfa stóriðjustefnu
“Félagið mun meðal annars leggja áherslu á jafnrétti til náms óháð búsetu og fjárhag þar sem allir ættu að geta sótt framhaldmenntun í sinni heimabyggð án þess að flytjast búferlum með miklum tilkostnaði eða ferðast langar leiðir. Stóriðju- og umhverfismál eru einnig ofarlega í huga félagsmanna en þess má geta að á fundinum var skorað á ríkisstjórn Íslands að koma með raunhæfa stefnu í byggðamálum,” segir Ásmundur.
Í ályktun sem samþykkt var á fundinum var þeirri skoðun komið á framfæri að einhæf stjóriðjustefna bitni verulega á atvinnulífi og búsetuskilyrðum víða um land og með annarri stefnu væri hægt að tryggja fjölbreyttara atvinnulíf. Í stað virkjana og álversframkvæmda ætti frekar að stuðla að rannsóknum og þróun á sviði jarðhitatækni og djúpborunum, með það að sjónarmiði að Ísland verði leiðandi í vistvænni, sjálbærri orkuöflun heima fyrir og erlendis. Þá var einnig skorað á ríkisstjórnina að viðurkenna nýkjörna stjórn Palestínu og vinna að því að þjóðin fái fullan rétt yfir eigin landi og Ísraelsmenn hverfi frá ólöglegum landtökubyggðum.