22. febrúar. 2006 10:29
Fyrirtækið BM- ráðgjöf ætlar að opna starfsstöð í Stykkishólmi og mun hefja starfsemi sína á næstunni. Fyrirtækið, sem mun hafa þörf fyrir 14 til 16 manns í vinnu, hefur mikið verið að vinna fyrir félagssamtök og líknarfélög við fjáraflanir gegnum símasölu, meðal annars fyrir SÁÁ. Þetta verður fimmta starfsstöð fyrirtækisins á landinu en hinar fjórar eru staðsettar í Reykjavík, Vestmannaeyjum, Reykjanesbæ og Blönduósi.
Starfsstöðin kemur til með að auka á fjölbreytni í atvinnulífinu á staðnum því störfin sem um er að ræða henta nánast öllum aldurshópum, frá krökkum á framhaldsskólaaldri og upp úr. Ekki hefur verið gengið endanlega frá hugsanlegu húsnæði fyrir starfsemina.