22. febrúar. 2006 03:40
Á dögunum tók við ný stjórn í Stúdentaráði LBHÍ á Hvanneyri. Talsverðar breytingar hafa orðið undanfarið ár á starfsumhverfi Stúdentaráðsins þar sem aukning nemenda í skólanum hefur var mikil við stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands, en nemendafjöldi í skólanum fór úr 109 í 235 og verður það að teljast talsverð aukning. Mikil hagsmunabarátta nemenda fór fram á ýmsum vettvangi og meðal annars mótmæltu nemendur harðlega hækkun á skólagjöldum í byrjun skólaársins. Stúdentaráð LBHÍ er nú orðið fullgildur meðlimur í Bandalagi íslenskra námsmanna og er það mikilvægt fyrir lítinn skóla eins og LBHÍ að taka þátt í þessu sameiginlega baráttutæki stúdenta á Íslandi.
Aðstaða Stúdentaráðsins hefur stórbatnað þar sem það hefur nú til umráða heila álmu í kjallara Nýja skóla fyrir starfsemi sína og ritstjórn skólablaðsins. Einnig var opnuð í byrjun ársins líkamsræktaraðstaða í kjallara skólans sem hefur verið vel sótt og fengið góðar viðtökur nemenda og staðarbúa. Félagslífið hefur verið öflugt að vanda með tilheyrandi grillveislum, árshátíð, þorrablóti, fyrirlestrum, búfjárræktarferðum og n.k. fimmtudag 23. febrúar verður Viskukýrin haldin, sem er spurningakeppni milli nemenda og kennara skólans. Logi Bergmann Eiðsson er spyrill í þeirri keppni.