23. febrúar. 2006 12:04
Bæjarstjórn Stykkishólms samþykkti samhljóða á fundi sínum á dögunum að skora á Vegagerð ríkisins að endurgera Stykkishólmsveg frá afleggjara að Skógarströnd og niður í Stykkishólm. Í samþykkt bæjarstjórnar kemur fram að þungatakmarkanir á þessum kafla séu tíðar og það sé slæmt fyrir atvinnulífið sem byggi á miklum flutningum til og frá bænum. „Vegurinn er illa farinn og getur verið hættulegt að aka bifreiðum eftir honum. Bæjarstjórn Stykkishólms telur afar brýnt að fara í þessa vegagerð strax í sumar,“ segir orðrétt í samþykktinni. Þá er einnig bent á að einnig þurfi að setja upp vegrið í Vogsbotni.