24. febrúar. 2006 10:38
Byggðaráð Dalabyggðar hefur hafnað tilboðum sem bárust í nokkrar félagslegar íbúðir í eigu sveitarfélagsins. Annað tilboðið var frá GG Top ehf. sem bauð í fasteignir við Stekkjarhvamm 5, 7 og 10 og Sunnubraut 1a, 1b, 3a og 3b. Tilboðið var samtals að upphæð 33 milljónir króna. Samtals eru umræddar fasteignir tæpar 98 milljónir króna að brunabótamati og tæpar 54 milljónir króna að fasteignamati. Hitt tilboðið barst frá Finnbirni Gíslasyni og Margréti Jóhannsdóttur og var í fasteignirnar að Stekkjarhvammi 5 og 7 og var að upphæð 11 milljónir króna í hvora íbúð. Þær eru hvor um sig rúmar 17 milljónir króna að brunabótamati og rúmar 8 milljónir króna að fasteignamati.
Byggðaráð bókaði að það hafnaði tilboðunum meðal annars á þeirri forsendu að allar íbúðirnar eru í útleigu og ekki er gert ráð fyrir sölu þeirra í nýsamþykktri fjárhagsáætlun ársins 2006.