28. febrúar. 2006 03:54
Akraneskaupstaður hefur auglýst lausar til umsóknar lóðir fyrir 94 íbúðir í 1. áfanga Skógarhverfis. Umsóknarfrestur er til 15. mars. Um er að ræða 61 einbýlishúsalóð, þar af eru 9 lóðir fyrir hús á tveimur hæðum, 5 parhúsalóðir fyrir hús á einni og tveimur hæðum og þá eru 6 raðhúsalóðir.
Samkvæmt skilmálum verður lóðunum úthlutað til einstaklinga sem eru 18 ára og eldri sem hafa ekki fengið úthlutað lóð á Akranesi eftir 1. janúar 2003 og verður dregið úr umsóknum. Par- og raðhúsalóðum verður aðeins úthlutað til lögaðila og mun bæjarráð annast þá úthlutun. Umsækjendur þurfa að leggja fram skriflega staðfestingu frá lánastofnun um greiðslugetu og mögulega lánafyrirgreiðslu að upphæð 25 milljónir króna.
Áætlað er að svæðið verði byggingarhæft í tveimur áföngum, sá fyrri 1. september í haust og sá síðari 15. október.