23. mars. 2006 11:01
Fiskmarkaður Íslands hf. var rekinn með rúmlega 51,2 milljón króna hagnaði á síðasta ári en árið áður var hagnaðurinn rúmar 55,5 milljónir króna. Í fyrra rak félagið uppboðsmarkað fyrir fisk í Ólafsvík, Grundarfirði, Stykkishólmi, Rifi, Arnarstapa, Akranesi, Reykjavík og Þorlákshöfn. Seld voru tæp 48 þúsund tonn af fiski fyrir 5.367 milljónir króna og var meðalverð á hvert kíló um 120 krónur. Árið áður var meðalverðið 124 krónur.
Rekstrartekjur félagsins voru í fyrra rúmar 436 milljónir króna og rekstrargjöld voru tæpar 374 milljónir króna. Afskriftir námu rúmum 28 milljónum króna og fjármunatekjur voru tæpar 27 milljónir króna. Eins og áður sagði var hagnaður ársins rúmlega 51,2 milljónir króna.
Í tilkynningu frá félaginu segir að þessi niðurstaða sé mjög í takt við afkomutilkynningu sem send var út eftir fyrstu níu mánuði liðins árs. Meðalverð heldur áfram að lækka aðeins á milli ára sem þýðir sambærilega lækkun á uppboðstekjum af hverju kílói til félagsins, hins vegar jókst selt magn lítillega og sú aukning ásamt tekjum af nýrri þjónustudeild, kvótasölu, vegur það tekjulækkunina upp að mestu.
Félagið bendir á að óvissuþættirnir í rekstri þess séu margir, meðal annars þróun gjaldmiðla og fiskverðs og aflabrögð hjá viðskiptabátum félagsins og því varhugavert að gefa út nákvæmar afkomuspár fyrir líðandi ár. Segir að miðað við stöðuna í dag þá séu horfur í rekstri nokkuð góðar, selt magn það sem af er árinu er nánast það sama og á sama tímabili á síðasta ári. Meðalverðið hafi heldur hækkað með lækkun íslensku krónunnar.
Í byrjun ársins víkkaði félagið út starfsemi sína með því að bjóða nú upp á slægingar- og flokkunarþjónustu fyrir viðskiptavini sína á utanverðu Snæfellsnesi. Þessi starfsemi var áður í höndum undirverktaka. Stoðunum undir starfseminni hefur því fjölgað og auk þess sem rekstur hlutdeildarfélaga hefur verið með miklum ágætum að undanförnu að því er kemur fram í tilkynningu félagsins. Er því reiknað með að afkoma ársins verði svipuð og afkoma síðasta árs.