06. apríl. 2006 12:14
Magnús Þór Hafsteinsson þingmaður Frjálslynda flokksins hefur lagt fram á Alþingi fyrirspurn til menntamálaráðherra um skoðanakannanir. Í frétt á skessuhorn.is á þriðjudaginn boðaði Magnús Þór umrædda fyrirspurn í kjölfar mistaka Félagsvísindastofnunar við framkvæmd skoðanakönnunar um fylgi flokkanna fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á Akranesi.
Spyrlar í könnuninni studdust við lista þar sem einungis voru nöfn fjögurra flokka. Vantaði þar nafn Frjálslynda flokksins, sem boðað hefur framboð en ekki gengið frá framboðslista.
Í fyrirspurninni óskar Magnús Þór svara við því hvort menntamálaráðherra telji eðlilegt og samrýmast kröfum um fagleg vinnubrögð óháðra vísindastofnana að stofnun á vegum Háskóla Íslands standi fyrir gerð skoðanakannana um kjör til sveitarstjórna áður en lögbundinn frestur til að skila inn framboðum hefur runnið út. Einnig vill Magnús Þór vita hvort ráðherra telji eðlilegt að utanaðkomandi fyrirtæki eða einkaaðilar geti keypt stofnun á vegum Háskóla Íslands til verka af þessu tagi og einnig hvort ráðherra telji eðlilegt að háskólastofnanir keppi við einkafyrirtæki um framkvæmd slíkra kannana.
Þingmaðurinn óskar eftir munnlegu svari ráðherra við fyrirspurninni.