02. júní. 2006 08:34
Lagning vegar yfir Grunnafjörð er einn þeirra þriggja kosta, er stytt geta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur, sem gætu komið inn á nýja samgönguáætlun 2007-2018. Þetta kom fram á Alþingi í gær í svari Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra við fyrirspurn Halldórs Blöndals um styttingu þjóðleiðarinnar milli Akureyrar og Reykjavíkur.
Í svari Sturlu kemur fram að á áðurnefndri leið hafi verið gerð lausleg yfirlitsáætlun yfir fjóra styttingarmöguleika. Þriggja þeirra er getið á verkefnalista sem gerður hefur verið til undirbúnings vinnu við samgönguáætlun 2007-2018. Að mati ráðherra er einn þessara kosta sýnu vænstur. Er það leið um Svínavatn, sunnan Blönduóss, en þar mætti stytta leiðina um 13-15 km, eftir leiðavali. Þá ef leið sunnan Varmahlíðar sem styttir leiðina um 3-4 km og leiðin yfir Grunnafjörð sem eins og fram hefur komið í fréttum Skessuhorns styttir leiðina norður í land um 1 km en leiðina frá Akranesi til Borgarness um 7 km. Í niðurlagi svars ráðherra segir að óvíst sé á þessu stigi hvaða verk komi til framkvæmda á næstu samgönguáætlun og hvort eða hvenær verður ráðist í einhver þessara verkefna.