02. júní. 2006 03:55
Á Safnasvæðinu á Görðum var fyrir stundu opnaður vefurinn visitakranes.is, sem er nýr ferðaþjónustuvefur Akraneskaupstaðar. Vefurinn hefur verið í mótun um nokkurt skeið en með honum má segja að Akraneskaupstaður taki forskot í þjónustu og upplýsingagjöf á Netinu fyrir ferðamenn. Akraneskaupstaður er eina sveitarfélagið á landinu sem státar af svo efnismiklu markaðstæki fyrir ferðamenn, að Reykjavíkurborg undanskilinni. Hægt er að skoða vefinn á tveimur tungumálum, íslensku og ensku, enn sem komið er. Á visitakranes.is vefnum getur fólk fundið hinar ýmsu upplýsingar um Akranes og nágrenni og þá staði og listaverk sem á svæðinu eru. Þá er hugmyndabanki um það sem hægt er að gera á Akranesi sér til afþreyingar á vefnum svo og greinargott kort af svæðinu með fjölmörgum upplýsingum. Vefurinn er unninn hjá Nepal ehf. í Borgarnesi.