22. júní. 2006 02:46
Kærunefnd jafnréttismála hefur kveðið upp þann úrskurð að stjórn Dvalarheimilisins Höfða á Akranesi hafi ekki brotið jafnréttislög með ráðningu Guðjóns Guðmundssonar fyrrverandi alþingismanns í starf framkvæmdastjóra heimilisins á síðasta ári.
Alls sóttu sextán manns um starfið og samþykkti stjórn Höfða þann 3. maí 2005 að ráða Guðjón til starfans með þremur atkvæðum en Brynja Þorbjörnsdóttir hlaut tvö atkvæði. Í kjölfarið óskaði Brynja eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun stjórnarinnar og veitti stjórnin þann rökstuðning. Í framhaldi af því ákvað Brynja að vísa málinu til kærunefndarinnar.
Í úrskurði kærunefndarinnar segir meðal annars að telja verði óumdeilt að kærandi hafi aflað sér mun meiri menntunar en sá sem var ráðinn og hafi öðlast umtalsverða reynslu af fjármálum og fjármálastjórnun. Á hinn bóginn hafi sá sem ráðinn var á löngum starfsferli sínum, sem skrifstofustjóri, staðgengill framkvæmdastjóra, bæjarstjórnarmaður og þingmaður, öðlast mikla reynslu á sömu sviðum. Þá segir að játa verði atvinnurekanda nokkuð svigrúm til að meta og ákveða hvaða atriði það eru sem mestu ráða við ráðningu í tiltekið starf. Því telur nefndin að ekki verði talið að kynferði kæranda hafi ráðið því að hún var ekki ráðin til starfans.