02. ágúst. 2006 12:18
Aganefnd KSÍ úrskurðaði í gær á fundi sínum í máli Hjartar Hjartarsonar og Guðmundar Viðars Mete. Nefndin tók málið til umfjöllunar á fundi fyrir viku en frestaði því til að gefa málsaðilum færi á rökstuðningi. Í kjölfar hans kvað nefndin upp úrskurð sinn og var Hjörtur úrskurðaður í tveggja leikja bann og Guðmundur í eins leiks bann, báðir vegna “framkomu í leik 23. 7.” eins og segir í úrskurðinum. Hjörtur hefur viðurkennt að hafa kallað Guðmund “Tyrkjaskít” og sagt honum að “drulla sér heim” í umræddum leik. Það hafi hins vegar komið í kjölfar ögrana Guðmundar sem hafi kallað móður Hjartar hóru, hótað honum fótbroti og fleira í þeim dúr. Að ummælum Hjartar föllnum hafi Guðmundur síðan hótað honum lífláti eftir leik.
Ljóst er af úskurði þessum að aganefnd metur framkomu beggja ámælisverða og rennir það stoðum undir lýsingu Hjartar á málinu. Aganefnd metur báða seka en brot Hjartar alvarlegri. Af því má ráða að nefndin meti ummæli tengd kynþætti alvarlegri en þann dónaskap sem Guðmundur er sakaður um að hafa viðhaft.
Aganefnd birtir ekki rökstuðning fyrir ákvörðun sinni og greinagerðir þær sem knattspyrnudeildir ÍA og Keflavíkur sendu inn eru trúnaðarmál. Ekki er hægt að úrskurða dómi aganefndar og stendur hann því. Hjörtur Hjartarson hefur því leikið sinn síðasta leik fyrir ÍA í sumar þar sem hann er á förum til Bandaríkjanna í nám eftir þrjár vikur og á þeim tíma eru einungis tveir leikir á dagskrá.