08. ágúst. 2006 07:18
Stofnað hefur verið sjálfstætt svið hjá Íslenska járnblendifélaginu á Grundartanga sem ætlað er að sinna gæða-, heilsu-, umhverfis- og öryggismálum. Framkvæmdastjóri hins nýja sviðs verður Sigrún Pálsdóttir núverandi gæðastjóri fyrirtækisins. Starfssemi rannsóknarstofu og starf öryggisfulltrúa falla m.a. undir nýja sviðið. Á vef ÍJ segir að markmið með stofnun sérstaks sviðs um þessa málaflokka sé m.a. að tryggja óháða gæðastjórnun innan fyrirtækisins, gagnvart birgjum og viðskiptavinum.
“Þetta er mjög mikilvægt í ljósi þess að framleiðslan verður sífellt fjölbreyttari, viðskiptavinum fjölgar og kröfur þeirra fara vaxandi. Heilsu-, umhverfis- og öryggismál eru síðan málaflokkar sem framkvæmdastjórn fyrirtækisins vil leggja enn frekari áherslu á til framtíðar,” segir í frétt ÍJ.
Þess má geta að Sigrún er fyrsta konan sem gegnir framkvæmdastjórastarfi hjá Íslenska járnblendifélaginu í meira en aldarfjórðungstíð verksmiðjunnar.