20. ágúst. 2006 11:35
Einn lést og tveir eru alvarlega slasaðir eftir slys þegar bifreið ók á hross sem hljóp yfir Vesturlandsveg um miðnætti í nótt. Fjórir eru minna slasaðir. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu, og greint er frá á mbl.is, þá hljóp hross yfir veginn á milli Þingvallaleiðar og Köldukvíslar með þeim afleiðingum að ökumaður bifreiðarinnar, sem var á leiðinni upp á Kjalarnes, missti stjórn á henni og lenti bifreiðin á annarri bifreið sem var að koma úr gagnstæðri átt. Farþegi í aftursæti bifreiðarinnar sem ók á hrossið lést en ökumaðurinn var fluttur mjög alvarlega slasaður á Landspítalann háskólasjúkrahús. Tveir farþegar í bifreiðinni slösuðust minna en voru einnig fluttir á sjúkrahús. Ökumaður hinnar bifreiðarinnar slasaðist einnig alvarlega og var fluttur á sjúkrahús en tveir farþegar í bifreiðinni voru minna slasaðir.
Loka þurfti Vesturlandsveginum í þrjár klukkustundir og var hann því ekki opnaður á ný fyrr en á fjórða tímanum í nótt, segir í frétt á: www.mbl.is
Nú hafa 16 manns látið lífið í umferðarslysum hér á landi það sem af er ári og þar af fjórir í þessari viku.