06. nóvember. 2006 01:23
Vinnuhópur Borgarbyggðar um nýtingu húseigna sveitarfélagsins í Brákarey hefur skilað af sér skýrslu um notkunarmöguleika fasteigna þar. Um er að ræða húseignirnar sem Borgarnes kjötvörur voru í, en eins og kunnungt er flutti fyrirtækið nýverið starfsemi sína í nýtt húsnæði. Tillögur að nýtingu húseignanna ná aðeins til 1. júní 2007 þar sem skipulagsferli er að fara í gang um framtíðarskipulag í Brákarey. Ástand húsanna er mjög misjafnt, sums staðar afar bágborið og því er einungis lögð til nýting á litlum hluta húsanna.
Þær hugmyndir sem hópurinn nefnir eru meðal annars að skrifstofur á jarðhæð og annari hæð verði leigðar út þar sem þær eru tilbúnar til notkunar. Þá segir að eldhús og starfmannaaðstöðu á jarðhæð mætti leigja út undir myndlista-og handverksnámskeið. Kjallarinn yrði nýttur fyrir unglinga í sveitarfélaginu, jafnt stúlkur sem drengi eins og segir í tillögunni. Ekki er gert ráð fyrir kostnaði vegnar þeirrar starfsemi í bili. Eins mætti nýta rými í kjallara sem geymslu fyrir Safnahús Borgarfjarðar. Starfsmaður eignasjóðs mun væntanlega hafa umsjón og lyklavöld að þessum byggingum.