12. nóvember. 2006 07:09
Eineltisfyrirlestur Stefáns Karls Stefánssonar, leikara sem hann hélt á netinu sl. þriðjudag og var samtímis fluttur í mörgum grunnskólum landsins hefur vakið mikla ánægju skólafólks sem segir boðskap hans vekja nemendur til umhugsunar um að einelti sé alvarlegt mál. "Fyrirlesturinn var afar vel heppnaður og náði tilætluðum árangri í skólanum hjá okkur. Nemendur voru virkilega vaktir til umhugsunar um hvenær stríðni er orðin að einelti og þær alvarlegu afleiðingar sem einelti getur haft á einstaklinga alla ævi. Í kjölfar fyrirlestrarins spunnust upp miklar umræður um líðan nemenda, hvort einhverjum væri að líða illa í skólanum og hvort verið væri að leggja einhvern í einelti. Var þessi fyrirlestur afar gott innlegg í skólastarfið og kunnum við Stefáni Karli hinar bestu þakkir fyrir hans framlag,” segir Þórunn María Óðinsdóttir skólastjóri Varmalandsskóla í Borgarfirði.