17. nóvember. 2006 02:13
Fyrir skömmu lögðu kennarar Tónlistarskóla Borgarfjarðar land undir fót og fóru í námsferð til Barcelona. Tilgangur ferðarinnar var m.a. að heimsækja tónlistarskóla þar í borg og kynnast spænskri tónlist. “Tónlistarskólinn sem við heimsóttum heitir Escola d´Arts Musicals Luthier, sem er eins og okkar skóli með nemendur á öllum aldri og kennt er á flest hljóðfæri,” segir Theodóra Þorsteinsdóttir skólastjóri Tónlistarskóla Borgarfjarðar í samtali við Skessuhorn.
“Svo heppilega vildi til að aðstoðarskólastjóri tónlistarskólans sem við heimsóttum er Íslendingur, Arnaldur Arnarson gítarleikari. Við fengum mjög góðar móttökur, okkur var sýndur skólinn og við fengum einnig að fylgjast með kennslu. Við skoðuðum líka verslun sem tilheyrir skólanum en hún selur aðallega gítara, nótur og geisladiska. Stærsti hluti nemenda tónlistarskólans er í gítarnámi, en rík hefð er fyrir gítarleik á Spáni.” Að sögn Theodóru var tíminn nýttur vel, farið var í skoðunarferð um borgina en þar gefur m.a. að líta hinn sérkennilega byggingarstíl Gaudis. Farið var í tónlistarverslanir og keyptar nótur og hljóðfæri sem nýtast í kennslunni heima. Einnig fóru kennararnir á tónleika þar sem m.a. var boðið upp á óperusöng, zarzuela, gítarleik, jazz og síðast en ekki síst flamencodans. “Þetta var lærdómsrík ferð fyrir okkur, við fengum heilmikinn innblástur og heppnaðist ferðin í alla staði vel,” sagði Theodóra.