17. nóvember. 2006 10:45
Lögreglan á Akranesi hefur nú gripið til þess ráðs að senda forráðamönnum ökumanna undir 18 ára aldri, sem hafa brotið af sér í umferðinni, bréf þar sem fram kemur hvort þeir eigi von á sekt eður ei. Þetta er nýbreytni í vinnubrögðum lögreglunnar og vonast hún til að með þessu grípi forráðarmenn inn í hættulega hegðun barna sinna.
Allmikið hefur borið á brotum ungra ökumanna í umferðinni á síðustu mánuðum. Því miður hafa ekki allir látið segjast og tekið upp betri siði við afskipti lögreglu og sektir sem þeim hafa fylgt. Því var ákveðið að senda foreldrum eða forráðamönnum ökumanna undir 18 ára aldri þ.e. ólögráða, bréf þar sem greint er frá því að viðkomandi hafi verið staðinn að broti og eins hvort hann megi eiga von á sekt eða ekki. Fyrstu bréfin voru send nú í vikunni og hefur lögregla fengið viðbrögð við þeim frá foreldrum sem eru á einu máli um að hér sé á ferðinni þarft framtak.
Er það von lögreglumanna að með því að upplýsa foreldra ungra ökumanna með þessum hætti megi stuðla að öruggari umferð í framtíðinni.