17. nóvember. 2006 12:00
Akranessdeild Rauða krossins hefur boðið bænum samning um þjónustu við útlendingar búsetta í bænum og er lagt til að samningurinn verði gerður í tilraunaskyni í eitt til tvö ár. Hugmynd deildarinnar er sú að komið verði á fót upplýsingamiðstöð um málefni útlendinga í húsi Rauða krossins þar sem að útlendingar geti leitað nauðsynlegra upplýsinga á einum stað.
Í upplýsingamiðstöðinni væri m.a. hægt að afla upplýsinga um húsnæðismál, dvalar- og atvinnuleyfi, heilsugæslu, aðgengi að íslenskunámi, réttindi og skyldur á vinnumarkaði, mannréttindi og svo framvegis. Einnig tæki starfsmaður deildarinnar að sér að halda utan um upplýsingar um málefni útlendinga í bænum og miðla þeim til fagfólks eftir þörfum.
Rauði Krossinn á Akranesi bendir bæjarráði á að þeir hafi sinnt fjölbreyttum verkefnum í þágu útlendinga og búi því yfir dýrmætri reynslu, mannauði og þekkingu. Deildin hafi á að skipa öflugum hópi sjálfboðaliða sem sinnt gæti túlkaþjónustu, félagsráðgjöf, kennslu og sálfræðiráðgjöf. Einnig hafi verkefnastjóri deildarinnar, Anna Lára Steindal, aflað sér sérþekkingar á málefnum útlendinga og því vel í stakk búin til þess að vinna með þessum hópi fólks.
Gera má ráð fyrir að allt að 200 einstaklingar af erlendum uppruna séu nú búsettir á Akranesi og líkt og Rauði krossinn bendir á, veltur það að verulegu leyti á því hvernig sveitarfélagið gerir þeim kleift að nýta hæfileika sína til þess að vera fullgildir og sjálfstæðir þáttakendur á öllum sviðum samfélagsins.
Bæjarráð samþykkti að vísa málinu til umsagnar félagsmálaráðs.