19. nóvember. 2006 12:51
Í Hvalfjarðarsveit er ráðgert að verði kátt á hjalla alveg fram að jólum og meðal þess sem þar má finna til afþreyingar eru jólamarkaðir, hlaðborð, aðventusamkomur, kóratónleikar og hverskyns skólaskemmtanir. Jólamarkaðir verða um helgar í gamla sláturhúsinu við Laxá en einnig Gallerí Álfhól á Bjarteyjarsandi. Á báðum þessum mörkuðum verður leitast við að hafa sem besta jólastemningu, fjölbreyttir handunnir munir til sýnis og sölu, kynt undir jólarómantíkina og eitthvað góðgæti geta gestir keypt sér í gogginn.
Á Hótel Glym verður sitthvað um að vera en fyrir utan hið villta jólahlaðborð sem þeir bjóða upp á til jóla, verður þar Þorláksmessuskata og áramótagleði. Auk þess mun hótelið vera með list, ljós, hönnun og margt fleira. Kammerkór Akraness, ásamt strengjasveit, mun halda tónleika í Hallgrímskirkju í Hvalfjarðarsveit en einnig verða hinar venjubundnu aðventusamkomur í kirkjunni. Kvenfélagið Lilja mun halda jólafund í veiðihúsinu við Laxá, bingó verður á Hlöðum og skólaskemmtun í Heiðarskóla 1. desember þar sem allir eru velkomnir.
Á myndinni eru hluti þeirra kvenna sem standa að Gallerý Álfhól á Bjarteyjarsandi, myndin er frá því í fyrra.