24. nóvember. 2006 10:56
Á kjördæmisþingi Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, sem haldið verður í Reykjaskóla í Hrútafirði um helgina, mun kjörnefnd kynna tillögu sína að framboðslista flokksins fyrir þingkosningarnar næsta vor. Sjö af efstu níu sætum listans skipa þáttakendur úr prófkjöri flokksins. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Skessuhorns verða níu efstu sæti listans þannig skipuð:
- 1. Guðbjartur Hannesson skólastjóri Akranesi
- 2. Séra Karl V. Matthíasson Reykjavík
- 3. Anna Kristín Gunnarsdóttir alþingismaður Sauðárkróki
- 4. Sigurður Pétursson bæjarfulltrúi Ísafirði
- 5. Helga Vala Helgadóttir laganemi Bolungarvík
- 6. Ragnhildur Sigurðardóttir umhverfisfræðingur Snæfellsbæ
- 7. Vanda Sigurgeirsdóttir lektor Sauðárkróki
- 8. Jóhannes Freyr Stefánsson húsasmiður Borgarbyggð
- 9. Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi Ísafirði
Sjö þeirra sem skipa níu efstu sætin samkvæmt tillögu kjörnefndar tóku þátt í prófkjöri sem fram fór á dögunum. Þau Vanda og Jóhannes Freyr eru hins vegar ný á lista ef svo má að orði komast.
Kjördæmisþing Samfylkingarinnar verður settur kl. 13 á morgun og þegar tekin hefur verið ákvörðun um skipan listans mun Guðbjartur Hannesson væntanlegur oddviti listans flytja erindi og á fundinum fer fram stefnumótunarvinna undir kjörorðinu „Fram til baráttu næsta vor“. Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi utanríkisráðherra verður sérstakur gestur fundarins. Öllum félögum í Samfylkingunni er heimil þáttaka í störfum fundarins en einungis kjörnir þingfulltrúar koma að afgreiðslu tillögu kjörnefndar um skipan framboðslistans.