24. nóvember. 2006 03:35
Framkvæmdanefnd Færeyskra daga í Ólafsvík hefur krafist þess að framkvæmdastjórn Heilsugæslustöðvarinnar í Ólafsvík biðji nefndina afsökunar á tilraun stjórnarinnar til að innheimta hjá nefndinni kostnað vegna heilsugæslu á hátíðinni Færeyskir dagar í sumar. Eins og fram kom í Skessuhorni á sínum tíma sendi framkvæmdastjóri heilsugæslustöðvarinnar í Ólafsvík, Björg Bára Halldórsdóttir, nefndinni reikning að fjárhæð 300 þúsund krónur vegna heilsugæslukostnaðar. Í samtali við Skessuhorn sagði hún alkunna að þeir sem héldu útihátíðir greiddu fyrir heilsugæslukostnað.
Í grein sem framkvæmdanefndin hefur ritað kemur fram að Svanhvít Jakobsdóttir skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu hafi í samtali sagt að ekki sé neinn grundvöllur fyrir innheimtunni því slíkt þurfi að byggja á samkomulagi beggja aðila. Þá segir framkvæmdanefndin að í framhaldi þess samtals hafi nefndinni borist bréf frá framkvæmdastjórn heilsugæslustöðvarinnar um að nefndin geti neitað að greiða reikninginn og því sé hann dreginn til baka „þar sem greinilegt er að það er ekki vilji nefndarinnar að taka þátt í þessum kostnaði.“
Framkvæmdanefndin krefst þess að verða beðin afsökunar á „þessum klaufalegu vinnubrögðum framkvæmdastjórnar heilsugæslunnar í Ólafsvík.Í tvígang hefur framkvæmdastjóri heilsugæslustöðvarinnar haldið því fram að aðrir mótshaldarar
greiði heilsugæslukostnað“ segir framkvæmdanefndin. „Við mótmælum því harðlega að framkvæmdastjóri heilsugæslustöðvarinnar í Ólafsvík beri það á borð fyrir fólk að við
séum eftirbátar annarra í þessum efnum“ og óskar nefndin eftir því að upplýst verði hvaða aðilar hafi greitt slíkan heilsugæslukostnað. Þá birtir nefndin yfirlýsingar frá forráðamönnum sjö bæjarhátíða víðs vegar um landið sem fullyrða að þeir hafi aldrei þurft að standa straum af heilsugæslukostnaði vegna þeirra hátíðarhalda.