27. nóvember. 2006 01:17
Faxaflóahafnir sf. hafa gengið frá kaupum hafnarinnar á landi Kataness og aðliggjandi lóðum í Hvalfjarðarsveit af ríkissjóði. Að sögn Gísla Gíslasonar hafnarstjóra er um að ræða land Kataness sem er 143 hektarar, tvær landsspildur úr landi vestra Kataness sem eru samtals 131,1 hektari, landsspildu úr landi Klafastaða sem er 80 hektarar og loks einn hektara sem skráður var eign Siglingastofnunar. Alls er því um að ræða 355,1 hektara samtals og var kaupverðið 110 milljónir króna.
Það landssvæði sem um er að ræða er land Kataness og það land sem verksmiðjur Norðuráls hf. og Íslenska Járnblendifélagsins hf. standa á. Faxaflóahafnir sf. eiga fyrir land Klafastaða og það landssvæði sem Grundartangahöfn var byggð á og er því heildar eign hafnarinnar í landi því um 615 hektarar. Gísli segir höfnina því búa vel að landi á Grundartanga sem verður skipulagt og þróað í framtíðinni fyrir starfsemi hafnarinnar í samvinnu við sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar.
Á myndinni til hliðar undirrita Jón Sveinsson hrl., Gísli Gíslason og Björn Ingi Hrafnsson frá Faxaflóahöfnum og Hafsteinn Hafsteinsson og Þórhallur Arason kaupsamninginn.