28. nóvember. 2006 02:45
Á haustfundi Hrossaræktunarsambands Vesturlands var búið á Stóra Ási valið ræktunarbú Vesturlands árið 2006. Ræktendur þar eru Lára Gísladóttir og Kolbeinn Magnússon. Í samtali Skessuhorn segir Lára að þeirra hrossakyn væri blanda af hrossum sem upprunin væru bæði frá Stóra Ási og Hofsstöðum. Mikið af þeim hrossum sem þau hafa verið að fá dóma fyrir undanfarið eru undan meri undan Gáska frá Hofsstöðum.
Hjónin hafa stundað ræktun á hrossum í fimmtán ár og hefur Gísli Gíslason, bróðir Láru, veitt þeim lið með tamningu og sýningu á hrossunum og sama má segja um aðra fjölskyldumeðlimi, sem hafa verið boðnir og búnir að aðstoða. „Það er auðvitað ómetanlegt að eiga góða að, í þessu eins og öðru,” segir Lára. Til þess að bú fái þessi verðlaun þarf útkoma þeirra hrossa sem sýnd eru á árinu að vera afar góð. Frá Stóra Ási voru fjögur hross sett í dóm á þessu ári og var meðaleinkunn þeirra 8,16.