04. febrúar. 2007 06:09
Alls voru átta manns úr þremur bílum flutt á sjúkrahús eftir þriggja bíla árekstur sem varð norður af munna Hvalfjarðarganganna laust fyrir klukkan 16 í dag. Ekki urðu alvarleg slys á fólki, að sögn lögreglu, en um aftanákeyrslur var að ræða. Rekja má slysið til hálku en víða á Vesturlandi er hálka á vegum eftir snjókomu gærkvöldsins. Talsverðar tafir urðu á umferð í kjölfar slyssins enda margir á leið suður á bóginn eftir helgina. Fyrr í dag voru eldri hjón flutt á sjúkrahúsið á Akranesi eftir útafkeyrslu austur af Akrafjalli, skammt frá Grundartanga. Beita þurfti klippum til að ná fólkinu út úr bílnum, en meiðsli þess eru ekki talin alvarleg.