06. febrúar. 2007 10:16
Slökkvilið Snæfellsbæjar var kallað út í gærkvöldi vegna bruna um borð í Reyni Þór SH, 15 tonna netabáti á Arnarstapa. Báturinn var bundinn við bryggju á Arnarstapa þegar eldurinn kom upp. Skipshöfn á bátnum Særifi SH brást skjótt við og fóru um borð og hóf slökkvistörf enda Reynir Þór mannlaus. Að sögn Arnars Laxdals, skipverja á Særifi byrjuðu þeir á að loka öllum loftinntökum og vörnuðu því að eldurinn næði sér á strik. Þegar slökkvilið Snæfellsbæjar kom á staðinn var búið að ráða niðurlögum eldsins og þurfti einungis að reykræsta vélarrúm bátsins. Skemmdir eru því minni en ætla mætti. “Við settum í gang slökkvikerfi og kældum síðan niður eldsvæðið með sjó. Eldurinn var bundinn við vélarrúm bátsins og náði því ekki að dreifast út frá því. Ekki mátti þó muna miklu að verr færi,” sagði Arnar Laxdal í gærkvöldi í samtali við Alfons Finnsson, fréttaritara.