Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
12. febrúar. 2007 07:45

Landbúnaðarsafn Íslands stofnað á Hvanneyri á miðvikudaginn

Á miðvikudaginn kemur, þann 14. febrúar verður Landbúnaðarsafn Íslands formlega stofnað á Hvanneyri. Eins og Skessuhorn kynnti á sínum tíma verður safnið sjálfseignarstofnun (ses) og eru stofnaðilar Landbúnaðarháskóli Íslands, sveitarfélagið Borgarbyggð og Bændasamtök Íslands. Í stjórn safnsins eiga sæti, auk fulltrúa áðurnefndra stofnana, þjóðminjavörður eða fulltrúi hans og fulltrúi tilnefndur af landbúnaðarráðherra. Nefnd fulltrúa stofnenda Landbúnaðarsafns undirbjó málið. Hana skipuðu þeir Sveinbjörn Eyjólfsson frá Borgarbyggð, Tjörvi Bjarnason frá BÍ og Bjarni Guðmundsson frá LbhÍ en Bjarni hefur unnið dyggilega að undirbúningi þessa verkefnis um nokkurt skeið. 

 

Fjölbreytt hlutverk

“Landbúnaðarsafni Íslands er ætlað að leggja áherslu á tímabil þekkingar-, tækni og markaðsvæðingar landbúnaðarins sem eiginlega hófst með síðasta fjórðungi 19. aldar.  Búskapur tók þá að breytast úr sjálfsþurft til framleiðslu afurða fyrir markað í verkaskiptu samfélagi. Mannlíf breyttist og ný öfl tóku að móta ásýnd sveitanna. Nýtt menningarlandslag varð til. Verkþekking og tækniframfarir losuðu um vinnuafl sem horfið gat til þjónustu við nýjar atvinnugreinar. Hlutverk Landbúnaðarsafns Íslands er söfnun og varðveisla muna, minja og verkþekkingar, rannsóknir á landbúnaðarsögu og loks miðlun og fræðsla. Landbúnaðarsafn mun fyrst í stað m.a. byggja á nær 70 ára tilveru Búvélasafnsins á Hvanneyri. Tengsl Landbúnaðarsafns við LbhÍ styrkja möguleika þess til rannsókna, fræðslu og uppbyggingar á þekkingu um viðfangsefnið,” segir í fréttatilkynningu frá undirbúningsnefndinni.

 

Halldórsfjós

Stofndagur Landbúnaðarsafns Íslands var valinn fæðingardagur Halldórs Vilhjálmssonar: 14. febrúar. Halldór má telja einn helsta forgöngumann þekkingar-, tækni- og markaðsvæðingar landbúnaðarins á umræddu tímaskeiði auk þess sem hann mat mikils hinn mannlega þátt. Áhrif sín hafði Halldór sem skólastjóri á Hvanneyri í áratugi, eða frá 1907-1936, en einnig sem ráðunautur og þátttakandi í félagsstörfum bænda. Þess má geta að í umræðu er að nýta gamla fjósið á Hvanneyri, sem Halldór lét byggja árið 1928 og þótti þá mjög nýtískulegt. Halldórsfjós verður því í þágu Landbúnaðarsafns Íslands, enda lauk hlutverki þess sem fjóss fyrir nokkrum árum síðan þegar nýtt fjós var tekið í notkun á staðnum.

 

Minjasagan sögð

Með aðild Bændasamtaka Íslands að væntanlegu Landbúnaðarsafni er ekki síst horft til þess kynningarhlutverks sem safnið getur gegnt fyrir landbúnaðinn á hverjum tíma og því hvernig land, gróður og búfé er notað í atvinnuskyni og í þágu þjóðar.  Bændur og samtök þeirra hafa lengi látið sér annt um menningarsögu. Má t.d. nefna að málefni minjavörslu landbúnaðarins voru til umfjöllunar á Búnaðarþingi þegar árið 1903 er Sigurður Sigurðsson ráðunautur bar fram og fékk samþykkta tillögu um að félagið skyldi „hlynna að því, að gömul landbúnaðaráhöld komist á forngripasafnið.“Þá má geta þess að Búnaðarfélag Íslands eignaðist nokkurt safn eldri verkfæra sem stjórn félagsins samþykkti að afhenda Verkfærasafninu á Hvanneyri haustið 1940. Hafa þau verið varðveitt þar síðan.

Aðild Borgarbyggðar að Landbúnaðarsafni auðveldar safnastarf og vörslu menningarminja í sveitarfélaginu og landshlutanum. Hún er líka staðfesting á áhuga sveitarstjórnar á eflingu menningarstarfs í byggðarlaginu.

 

Tryggir tengsl við minjavörslu

Hin mörgu byggðasöfn víða um land eru að verulegum hluta landbúnaðarsöfn þar sem áhersla hefur helst verið lögð á hið gamla samfélag. Landbúnaðarsafn Íslands mun hins vegar leggja áherslu á breytingaskeiðið – tæknitímann sem svo má kalla með nokkurri einföldun. Landbúnaðarsafn á þannig að geta bætt við þá sögu sem byggðasöfnin flest segja.  Aðild Þjóðminjasafns Íslands að stjórn Landbúnaðarsafns er mikilvæg til þess að tryggja tengsl við aðra minjavörslu í landinu og nauðsynlega samhæfingu verka og viðfangsefna innan hennar.

 

Auk þeirra sviða sem hefðinni samkvæmt falla undir landbúnaðarsafn hvað form og muni varðar má benda á nokkur áhersluefni sem í verkahring þess gætu verið:

 

·         Saga og hefðir nýtingar lands með landbúnaði

·         Menningarlandslag með áherslu á mótandi þátt landbúnaðarins

·         Innlendar erfðalindir nytjaplantna og húsdýra

·         Bygginga- og mannvirkjasaga sveitanna

·         Saga þjónustugreina, svo sem búnaðarkennslu, leiðbeininga og dýralækninga.

 

Landbúnaðarsafn Íslands, að því marki sem staðbundið verður, mun starfa á nábýli við LbhÍ. Nábýlið býður upp á margs konar samstarfs- og samnýtingarkosti:  Landbúnaðarháskóli Íslands og þær stofnanir, sem runnu saman við stofnun hans, geyma mikilvæga sögu og fjölmargar minjar um hana, enda spannar starfstími þeirra mesta breytingaskeið í sögu landbúnaðarins og mannlífs í sveitum.  Samnýting mannafla svo sem til kennslu og rannsókna er möguleg, einnig samnýting bókasafns, verkstæða, húsnæðis til fyrirlestra og fleira er varðar daglegan rekstur.  

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is