11. febrúar. 2007 10:10
Sýning Benedikts Erlingssonar á Mr. Skallagrímsson verður tekin til sýninga að nýju í Landnámssetrinu í Borgarnesi 3. mars næstkomandi. Sýningin var frumsýnd á Söguloftinu við opnun setursinn 13. maí í fyrravor og sló í gegn sem frægt er orðið. Gagnrýnendur luku einróma lofsorði á sýninguna og var hún t.d. valin athyglisverðasta leiksýning ársins 2006 af Morgunblaðinu. Mr. Skallagrímsson er einleikur sem saminn er og fluttur af Benedikt Erlingssyni. Sýningum lauk fyrir fullu húsi í lok október þar sem Benedikt þurfti að hverfa til annarra starfa. Áformað var að byrja aftur í apríl en vegna mikillar eftirspurnar hefur tekist samkomulag milli hans og Landnámssetursins að koma fyrr til leiks.
Sýningum á Mýramanninum eftir Gísla Einarsson og Svona eru menn með þeim KK og Einari Kárasyni verður haldið áfram. En þar sem KK er að hljóðrita í Kína, Einar á fyrirlestrarferðalagi um Þýskaland og Gísli Einarsson upptekinn við veislustjórn um helgar takmarkast sýningarfjöldi þeirra nokkuð. KK og Einar munu þó koma fram í Landnámssetri 16. og 17. febrúar og er uppselt á báðar sýningarnar og 23. og 24. mars en þar eru ennþá nokkur sæti laus.
Sýningar Gísla á Mýramannum verða aðallega á fimmudagskvöldum og sunnudagseftirmiðdögum enda tilvalin fjölskylduskemmtun. Í apríl verða svo allar þessar sýningar á verkefnaskrá Landnámsseturs sem hlýtur að teljast ærlegt tilefni til þess að bregða sér í leikhúsferð í Borgarnes.