13. febrúar. 2007 07:18
Bæjarráð Akraness hefur tekið tilboðum í fjórar framkvæmdir í ýmiss konar gatnagerð. Öll eru tilboðin undir kostnaðaráætlun. Í fyrsta lagi var tekið tilboði GP-véla ehf. í endurnýjun veitulagna og slitlags Sandabrautar að upphæð tæpar 12 milljónir króna sem er tæplega 69% af kostnaðaráætlun. Þrjú önnur tilboð bárust í verkið og voru tvö þeirra yfir kostnaðaráætlun. Í öðru lagi var tekið tilboði Klæðningar ehf. í gangstéttagerð og fleira við Akursbraut, Heiðarbraut og Höfðabraut að upphæð 8,5 milljónir króna sem er tæplega 75% af kostnaðaráætlun. Tvö önnur tilboð bárust í verkið og var annað þeirra yfir kostnaðaráætlun.
Í þriðja lagi var tekið tilboði Klæðningar ehf. í malbikun Smiðjuvalla að upphæð rúmar 14,6 milljónir króna sem er 87,5% af kostnaðaráætlun. Þrjú önnur tilboð bárust í verkið og var eitt þeirra yfir kostnaðaráætlun.
Loks var tekið tilboði frá fyrirtækjunum Malbik og völtun ehf. og Jarðmótun ehf. að fjárhæð rúmar 49,5 milljónir króna í frágang á yfirborði Skógarflatar, Hagaflatar og Holtsflatar og er upphæðin rúmlega 87% af kostnaðaráætlun. Þrjú önnur tilboð bárust í verkið og voru tvö þeirra yfir kostnaðaráætlun.