14. febrúar. 2007 07:10
Á dögunum fögnuðu starfsmenn Sjúkrahússins og heilsugæslustöðvarinnar á Akranesi 30 ára afmæli A-deildar, eða lyflækningadeildar stofnunarinnar. Það var 1. febrúar 1977 sem starfsemi deildarinnar hófst í núverandi húsnæði. Sögu deildarinnar má þó rekja aftur til ársins 1968 en þá var ráðinn fyrsti lyflæknir sjúkrahússins. Alls geta 18 sjúklingar dvalið á deildinni og hefur starfsemin verið öflug undanfarin ár. Innlögnum hefur fjölgað ár frá ári og eru þær nú um 700 á ári auk þess sem 45-55 dagdeildarsjúklingar sækja þangað þjónustu.
Hlutverk lyflækningadeildar er að veita almenna lyflækningaþjónustu fyrir íbúa þjónustusvæðis SHA og aðra sem til deildarinnar leita. Valdís Heiðarsdóttir hjúkrunardeildarstjóri segir í samtali við Skessuhorn að markmið deildarinnar sé að veita skjólstæðingum bestu meðferð á sviði lyflækninga og hjúkrunar á hverjum tíma eftir því sem kostur er á og aðstæður bjóða. Hún segir að við deildina starfi sérfræðingar í lyflækningum en einnig sé til staðar sérfræðiþekking í hjarta,- meltingar,- gigtar- og nýrnasjúkdómum og þá starfið við deildina einnig reyndir hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar sem sinni skjóstæðingum sínum af fagmennsku auk þess að sinna kennslu í klínisku námi fyrir hjúkrunarnema og sjúkraliðanema.
Þorkell Guðbrandsson er yfirlæknir deildarinnar og hjúkrunardeildarstjóri er eins og áður sagði Valdís Heiðarsdóttir.