14. febrúar. 2007 01:27
Bæjarráð Akraness hefur vísað til afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar bæjarins hugmyndum Loga S. Jóhannssonar f.h. Málningarbúðarinnar ehf. um uppbyggingu á lóðinni nr. 39 við Kirkjubraut. Samkvæmt hugmyndum Loga verður núverandi bygging á lóðinni fjarlægð og byggt verði í staðinn fjögurra hæða lyftuhús sem nýtt verði sem blandað húsnæði með þjónusturýmum á götuhæð, 2. hæð og ef til vill á þriðju hæð. Þá er gert ráð fyrir íbúðum á fjórðu hæð og einnig ef til vill á þriðju hæð.
Nýtingarhlutfall lóðarinnar samkvæmt þessum hugmyndum er í samræmi við þær hugmyndir sem bæjaryfirvöld hafa viðrað að undanförnu á þessu svæði eða um 1,43. Samkvæmt núgildandi deiliskipulagi er nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,4-0,6.
Þar sem breyta þarf deiliskipulagi eigi þessar nýju hugmyndir að ná fram að ganga óskaði Logi eftir afstöðu bæjaryfirvalda til málsins þannig að hægt væri að halda áfram með skipulagningu og hönnun byggingarinnar eða leggja þær til hliðar ella.